útdráttur úr ritum Sri Chinmoys
Árangur hugleiðslunnar byggist algjörlega á innra ákalli okkar. Barn sem er svangt, verulega svangt, grætur. Það er kannski á fyrstu hæðinni og móðir þess uppi á þeirri þriðju en þegar hún heyrir grátinn flýtir hún sér niður til að gefa barninu að borða.
Við skulum líta á hugleiðsluna sem innra hungur. Þegar við erum svöng, hraðar hinn almáttugi Faðir sér til okkar hvar sem við erum grátandi. Jafnskjótt og ákall okkar er ákaft og einlægt, byrjum við að taka andlegum framförum. Að öðrum kosti getur það tekið mörg ár.
Hins vegar er Guðskynjun ólík skyndibitastað. Hún er ekki afgreidd samstundis, heldur krefst hún tíma. Þú skalt ekki taka það trúanlegt ef einhver segist geta látið þig skynja Guð á einni nóttu. Meistaragráða, sem grundvallast á ytri þekkingu, krefst tuttugu ára náms. Guðskynjun, sem er ólíkt þýðingarmeira og markverðara nám, tekur að sjálfsögðu miklu lengri tíma. Ég er ekki að reyna að draga kjark úr nokkrum manni. Guð seður innra hungur þitt svo framarlega sem það er einlægt.
Okkur tekst þetta örugglega, ef við ástundum einbeitingu og hugleiðslu reglulega. Við náum takmarkinu ef einlægni okkar er ósvikin. En vandinn er sá að við erum hugsanlega einlæg í einn dag eða eina viku og komumst að því búnu að þeirri niðurstöðu að hugleiðsla sé ekki fyrir okkur. Við viljum skynja Guð á einni nóttu. „Ég ætla að biðjast fyrir í eina viku, einn mánuð, eitt ár,“ hugsum við Ef við höfum ekki skynjað Guð að ári, gefumst við upp og finnst andlegt I íf ekki vera ætlað okkur.
Leiðin til Guðskynjunar er löng. Á ferð þinni sérðu stundum lalleg tré sem bera blóm og ávexti. Stundum blasir ekkert við nema auður vegurinn. Annað veifið kann þér að finnast þú vera á leið í gegnum endalausa eyðimörk og að takmarkið sé óþolandi langt undan. Þú mátt samt ekki gefast upp á göngunni bara vegna þess að fjarlægðin virðist löng eða af því að þú ert þreyttur og skortir andagift. Þú verður að vera guðdómlegur baráttumaður og sækja hugrakkur og óþreytandi fram. Dag hvem ferðastu einn kílómetra í viðbót og munt á endanum ná takmarkinu með því að halda áfram skref fyrir skref. Þegar þar er komið finnst þér að ferðalagið hafi tvímælalaust verið þess virði.