útdráttur úr ritum Sri Chinmoys
Orðið Gúrú er komið úr sanskrít og þýðir „sá sem upplýsir“. Sá sem færir uppljómun er kallaður Lærimeistari eða Gúrú. Ég vil taka það fram að samkvæmt minni innri Guðskynjun er aðeins til einn sannur Lærimeistari og það er hið Æðsta. Engin mannleg vera, heldur hið Æðsta er hinn eini sanni Lærimeistari. Tími okkar hér á jörðu er dýrmætur og ef á vegi okkar verður einhver, sem megnar að liðsinna okkur á leiðinni í átt að uppljómun, þiggjum við hjálp hans. Þann mann megum við kalla Lærimeistara okkar.
Andlegum Meistara eða Gúrú má líkja við elsta systkinið í fjölskyldunni og leitendunum við yngri andlega bræður hans og systur. Andlegir Meistarar greina frá og benda yngri systkinum sínum á hvar Faðir þeirra, hinn Óvefengjanlegi Gúrú er.
Hinn raunverulegi Lærimeistari leynist ekki í víðáttu himinsins heldur í djúpum hjarta okkar. „Hví þurfum við að fá utanaðkomandi aðstoð,“ kunnið þið að spyrja, „úr því að Hann býr í hjarta okkar?“ Við erum hjálpar þurfi af því að við hvorki komum auga á né finnum fyrir þessum ómetanlega fjársjóði þó hann sé geymdur í hjarta okkar. Vinur okkar, sem við köllum Gúrú eða andlegan kennara, kemur á vettvang og kennir okkur að leita hans.
Engum er skylt að hafa lifandi Gúrú en það er svo sannarlega ráðlegt. Þú veist af takmarki sem þú ætlar þér að ná. Sértu hygginn þiggurðu hjálp frá þeim sem getur vísað þér á auðveldustu, öruggustu og árangursríkustu leiðina að því. Ef þú vilt eyða hundruðum eða þúsundum ára í að skynja Guð, er andlegur Meistari óþarfur. Ef þér finnst hins vegar áríðandi að ná settu marki svo fljótt sem auðið er, þá er hann ómissandi.
Það greiðir fyrir innri andlegum framförum að hafa Meistara. Andlegur Meistari er einkakennari á andlega sviðinu en einkakennari er allt annað en hefðbundinn kennari. Venjulegur kennari fer yfir verkefni nemandans og gefur honum síðan einkunn. Hann prófar nemandann og sker svo úr um hvort hann hafi staðist prófið eða sé fallinn. Einkakennari örvar á hinn bóginn nemandann og hvetur í eigin persónu heima hjá sér, til að hann nái prófinu. Fáviskan er stöðugt að leggja fyrir þig prófraunir á ferðalagi lífsins, en einkakennarinn kennir þér hvernig auðvelt er að standast þær. Hlutverk hans er að hvetja leitandann og efla þrá hans, svo að hann fyllist eldmóði og nái sem fyrst að skynja hið Hæsta.
Til þess að læra eitthvað í þessum heimi þarf kennari að koma okkur af stað í náminu. Kennara þarf til að læra stærðfræði. Einnig ef ætlunin er að læra sögu. Það er fráleitt að ímynda sér að kennarar komi að haldi við hvað eina í lífinu nema hugleiðslu. Hvers vegna fer fólk í háskóla ef það getur stundað námið heima hjá sér? Astæðan er sú að það hefur trú á að þar fái það góða leiðsögn frá fólki með sérfræðingsþekkingu á námsefninu. Fáir, örfáir viskunnar menn gengu ekki í háskóla. Já, það finnast undantekningar; engin regla er án undantekninga. Guð er í öllum og þeim leitanda, sem telur sig ekki þurfa mannlega hjálp, er frjálst að láta reyna á getu sína upp á eigin spýtur. Hjálp Lærimeistara er samt vissulega ómetanleg þeim sem er hygginn og ætlar að hlaupa að takmarkinu í stað þess að silast aðeins áfram eða hrasa.