SriChinmoy.org
is More about Sri Chinmoy
x

Endurholdgun

útdráttur úr ritum Sri Chinmoys

Video
Videó: Sri Chinmoy talar um endurholdgun

Við fáum ekki framkvæmt allt á einni mannsævi. Og ef við höldum okkur alltaf í heimi langana, öðlumst við ekki fyllingu. Sem börn höfum við ótal langanir og jafnvel þó við náum sjötugu, sjáum við ákveðna löngun, sem okkur hefur ekki tekist að fullnægja og líður illa fyrir vikið. Því fleiri löngunum sem við fullnægjum, þeim mun fleiri bætast við. Fyrst viljum við eignast eitt hús, því næst tvö; fyrst einn bíl, síðan tvo, o.s.frv. Löngunum okkar eru engin takmörk sett. Þótt við fullnægjum þeim, erum við samt ekki ánægð. Við verðum fórnarlömb æ fleiri langana.

Nú vitum við að Guð er okkar nánasti vinur. Heldurðu þá að Guð muni leyfa okkur að vera áfram ófullnægð? Nei! Guð vill fullnægja hverjum einstaklingi, og sjálfum sér í gegnum okkur. Hann lætur okkur því snúa aftur og aftur svo að löngunum okkar verði fullnægt. Ef einhver hefur ákafa löngun til að verða milljónamæringur og tekst það ekki áður en ævi hans er á enda runnin í það skiptið, verður hann, ef löngun hans er mjög sterk, að halda áfram að koma til baka, þangað til hann er orðinn milljónamæringur. En þegar hann er orðinn milljónamæringur kemst hann að því, að hann er enn aðeins sem aumasti betlari í vissum skilningi, því að hann hefur ekki öðlast hugarró.

Ef hann hins vegar hverfur inn í andlegan heim þrárinnar, á hann ef til vill enga peninga, en þess í stað býr hann yfir friði hugans, sem er hinn sanni auður.

Ef við lifum í heimi langana, sjáum við endalausa röð langana. En ef við lifum í heimi andlegrar þrár, sjáum við heildina, rennum inn í heildina og verðum að lokum heildin. Við vitum að ef við getum skynjað Guð, munum við finna allt í Guði, því að tilvera alls er í Guði. Svo að lokum munum við yfirgefa heim langana og fara inn í heim þrárinnar. Þar fækkum við löngunum okkar og hugum meir að friði, alsælu og guðdómlegri ást. Það gæti að vísu tekið mörg ár að öðlast svolítinn frið, örlítinn dropa af veigum Guðs. En andlegur maður er reiðubúinn að bíða óákveðinn tíma eftir

Stund Guðs til að uppfylla þrá sína. Og þrá hans til að öðlast þennan frið, ljós og alsælu, er ekki til einskis.

Sé markmið okkar að renna inn í hið hæsta, hið óendanlega, hið eilífa, hið ódauðlega, er eitt stutt æviskeið að sjálfsögðu ekki nóg. Þar mun Guð heldur ekki leyfa okkur að vera alltaf ófullnægð. I næstu jarðvist munum við halda áfram ferð okkar. Við erum eilífir ferðalangar. Við verðum stöðugt að halda áfram þar til við náum takmarkinu. Fullkomnun er markmið hvers einstaklings. Við reynum að fullkomna okkur sjálf í ófullkomnum heimi. Og þá fullkomnun getum við aldrei öðlast í einu lífi.

Sálin þroskar til fullnustu möguleikana á að skynja hið hæsta og fullnægja Guðdómnum með þrá okkar og þróun. Hið efnislega, hið mannlega í okkur, verður að þrá að verða eitt með hinu Guðdómlega í okkur, sálinni. Núna vill líkaminn ekki hlusta á boð sálarinnar; það er að segja, efnishugurinn gerir uppreisn.

Starfsemi efnishugans hylur Guðdómlegan tilgang sálarinnar og sálin kemst ekki upp á yfir- borðið. Á þessu stigi þróunarinnar eru flestir ómeðvitaðir um hvað sálin vill eða þarf. Fólk hefur sínar langanir, er kvíðið út af árangri eða árangursleysi, er ákaft og spennt. Allt þetta á rætur sínar í lífaflinu eða sjálfinu, þar sem aftur á móti allt sem gert er með vitund sálarinnar, felur í sér einskæra gleði. Ef til vill heyrum við stundum boð sálarinnar eða rödd samviskunar, en þrátt fyrir það segjum við hvorki né gerum réttu hlutina. Efnishugurinn er máttvana; við erum máttvana. Ef við byrjum hins vegar að þrá með huganum og förum síðan handan hugans til sálarinnar, getum við auðveldlega heyrt og einnig hlýtt boðum sálarinnar.

Sá dagur mun upp renna að sálin verður fær um að nota guðdómlega eiginleika sína og gera líkamanum, huganum og hjartanu ljóst að þau þarfnast sjálfsuppgötvunar sinnar. Efnislíkaminn og lífaflið munu vilja hlusta meðvitað á sálina og þiggja leiðsögn hennar. Þá munum við hér í jarðlífinu búa yfir ódauðlegu eðli, ódauðlegu lífi, því að sál okkar verður þá óaðskiljanlega eitt með Guðdóminum á jörðinni. Á þeirri stundu munum við bjóða öllum heiminum okkar innri auð og birta mátt og möguleika sálarinnar. Það gerist mjög oft að maðurinn nái að skynja Guð í einni jarðvist, en til fullkominnar birtingar Guðdómsins þarf sálin að koma aftur og aftur niður á jörðina. Hlutverki okkar er ekki lokið fyrr en við opinberum og birtum hinn hæsta Guðdómleika sem er innra með okkur. Við höfum ekki enn lokið hlutverki okkar í hinu mikla sjónarspili alheimsins, svo að við verðum að koma aftur og aftur inn í heiminn.

En í framgangi þróunarinnar mun sálin, í einni af jarðvistum sínum, að fullu skynja og birta Guðdóminn í efninu og í gegnum efnið.



Við komum inn í tilveruna úr sælu Guðs. Þegar við komum inn í sköpunina, þróuðumst við í gegnum hin lægri stíg: steinalífið, plöntulífið og dýralífið. Enda þótt við höfum nú byrjað mannlegt líf, erum við ennþá dýr að hálfu leyti. Sumir vilja meiða eða drepa aðra og sýna dýrslegt og skaðlegt eðli.

En annað gildir um mann með þrá. Hann leitast við að losa sig við sínar lægri hvatir og þráir að verða meðvitaður um sitt guðdómlega eðli og lifa í því. Þannig upplifir hann frið, gleði og ást.

Í upphafi komum við frá sælu; við vöxum í sælu og við munum snúa meðvitað aftur til sælunnar.